27. desember 2022

Hnefaleikafélag Reykjavíkur mun í janúar hefja samstarf með World Class í glænýrri aðstöðu í hæsta gæðaflokki sem ber nafnið World Class Boxing Academy hjá Kringlunni fyrir ofan WorldFit strax í janúar!

Hnefaleikafélag Reykjavíkur er sigursælasta lið Íslands í hnefaleikum og hefur starfsemi innan veggja World Class Boxing Academy strax í janúar á efri hæð World Class á móti Kringlunni þar sem að World Class var áður með sólarhringsopnun. Hnefaleikafélag Reykjavíkur, eða HR eins og félagið er yfirleitt kallað, var áður til húsa hjá Mjölni í Öskjuhlíð til margra ára en HR sagði nýverið upp samstarfssamningi sínum með það að markmiði að stækka starfið enn meira. Starf félagsins hefur stækkað gríðarlega eftir að Davíð Rúnar Bjarnason tók við starfi yfirþjálfara.

Í nýrri aðstöðu World Class Boxing Academy verður fullkomin aðstaða til hnefaleikaiðkunar með öllu til alls svo vægt sé til orða tekið.

Þjálfarteymi Hnefaleikafélags Reykjavíkur, með Davíð Rúnar yfirþjálfara í fararbroddi, mun sjá um þjálfun og skipulag tíma. Davíð hefur mikla reynslu af hnefaleikum eftir um 17 ár í kringum íþróttina bæði sem iðkandi, keppandi og þjálfari víðsvegar um heiminn. Þórarinn Hjartarson verður aðstoðaryfirþjálfari en hann hefur þjálfað hnefaleika hjá HR í tæpan áratug ásamt því að hafa verið iðkandi frá árinu 2008. Á hverju ári síðan að Davíð Rúnar tók við starfi yfirþjálfara hjá HR hafa iðkendur farið í margar keppnisferðir og æfingabúðir erlendis með mjög góðum árangri. Á árinu 2022 hlaut liðið 7 erlend gullverðlaun og þar af tvenn gullverðlaun á Golden Girl Boxcup í Svíþjóð sem er stærsta kvennaboxmót í heiminum ásamt því að hafa átt yfir helming allra landsliðssæta frá því að slíkt lið tók til starfa á Íslandi.

Markmið þjálfara félagsins er einfalt, að bjóða öllum upp á hnefaleikakennslu í hæsta gæðaflokki óháð getustigi í mun stærri aðstöðu en áður, stækka keppnislið félagsins verulega, auka gæðin enn meira,  að sækja áfram reglulega á mót erlendis og halda áfram að sanka að sér verðlaunum hérlendis og erlendis.

Það er því sannur heiður að bjóða alla þá sem hafa áhuga á að læra hnefaleika velkomna til Hnefaleikafélags Reykjavíkur í okkar nýju aðstöðu World Class Boxing Academy beint á móti Kringlunni strax í janúar. Starfsemi hefst samkvæmt stundartöflu 9.janúar og boðið verður upp á Krakkabox fyrir 8-11 ára, Unglingabox 12-17 ára, grunn og framhaldsnámskeið, Box fyrir 17 ára og eldri í grunnnámskeiðum, framhaldstímum og á keppnisstigi ásamt því að bjóða upp á svokallaða Boxing conditioning tíma þar sem almennu þreki er blandað saman við einfalt brennslubox óháð tæknikunnáttu.

Til baka