Eitt veglegasta heilsulónið er farið að mótast

Eigendur World Class áforma að reisa heilsuhótel og baðlón ásamt líkamsrækt á Fitjum í Njarðvík. Skipulagið er í kynningu og ef allt gengur að óskum gætu framkvæmdir hafist á næsta ári. Björn Leifsson, einn eigenda World Class, bindur vonir við að lónið verði opnað 2028.

Björn Leifsson, einn stofnenda og eigenda World Class-keðjunnar, sem rekur nú alls 18 stöðvar, tekur á móti ViðskiptaMogganum á skrifstofu sinni í Laugum í Laugardal. Á borðinu eru vel unnar teikningar af fyrirhuguðu heilsuhóteli, baðlóni og líkamsrækt á Fitjum í Njarðvík. Teikningarnar hafa verið kynntar skipulagsyfirvöldum í Reykjanesbæ og er heimilt að birta þær hér með þeim fyrirvara að þær séu í vinnslu. Fyrir nokkrum árum bauð Reykjanesbær gömlu steypustöðina við Fitjar í Njarðvík til sölu.

Björn Leifsson og aðrir eigendur World Class urðu hlutskarpastir í útboðinu. Var þeim þá boðið að fá byggingarlóð austur af steypustöðinni, gegn því að hún yrði jöfnuð við jörðu, en þar átti að vera útivistarsvæði. Það var svo í miðri farsóttinni að Björn fékk þá hugmynd að útbúa baðlón og síðar hótel með um 80 herbergjum. Nú, rúmum fjórum árum eftir að þau buðu í Steypustöðina, er verkefnið að taka á sig mynd en alþjóðlega arkitektastofan Populous í Denver hefur hannað mannvirkin í samstarfi við Baldur Ó. Svavarsson og Ari Má Lúðvíksson hjá Úti Inni arkitektum. Þess má geta að Guðmundur Jónsson, svili Björns, stýrir fjölmennri deild hjá arkitektastofunni í Denver.

Allt að 200 herbergi

Við Björn fáum okkur sæti og rýnum í teikningarnar. „Jarðhæðin verður með sex metra lofthæð. Þar verður meðal annars líkamsræktin, leikfimisalirnir, veitingastaðirnir, spaið, hótelafgreiðslan, hótelskrifstofurnar, önnur rými og aðkoma að hótelinu,“ segir Björn og útskýrir að gert sé ráð fyrir 200 herbergjum á hótelinu. Það er nokkur fjölgun frá fyrri áformum en fyrst var rætt um 80 herbergi. Lónið verði þrískipt. Í fyrsta lagi baðstofulón fyrir hótelgesti og spagesti. Í öðru lagi almenningslón og í þriðja lagi barnalón með leiktækjum. Neðar á lóðinni verða tvö gufuböð, hálfniðurgrafin, og heitur og kaldur pottur. „Þá verður veitingastaður við lónin með útsýni til hafs,“ segir Björn. Þegar komið er inn í vesturhluta byggingarinnar, sem snúa mun að Slippnum, verður World Class-stöðin á hægri hönd. Þar verður hefðbundin æfingastöð með lóðum, tækjum, jógasölum og World Fit-stöð. Á vinstri hönd verður móttaka fyrir hótelið og setustofa. Þar verður líka móttaka fyrir spa sem verður með sána, slökunarherbergi, köldum potti, slökunarherbergi og heitum potti. Þar við hlið, norðan megin, verður veitingahús með útsýni út á haf. Verður veitingahúsið samnýtt hótelinu, m.a. sem morgunverðarstaður. Þá verður útibar sem þjónar öllum lónunum.

Einkaklefar í kjallara

Í kjallara verða 211 bílastæði, búningsklefar og sána. Þá verður þar jafnframt sérstök aðstaða fyrir gesti sem hafa aðgang að baðstofunni (spa): nudd og heilsumeðferð, hvíldarstofa með arineld og einkaklefar til að fara í sturtu og hafa sig til. Á hæðum 2-5 verða hótelherbergi, 30,5 til 56 fermetra stór, og þakbar með aukinni lofthæð sem snýr að hafi. Byggingin verður ríflega 19.000 fermetrar og kjallarinn 3.000 til 4.000 fermetrar. Við hótelið verður 121 bílastæði ofanjarðar og því samtals 332 stæði við hótelið. Björn segir hótelið verða byggt þannig að gott útsýni verði frá öllum herbergjum sem verði með gólfsíðum gluggum. Almennir gestir lónsins muni hafa aðgang að veitingastað og bar en greiða þurfi fyrir aðgang að baðstofu.

Þakbar á efstu hæð

Á efstu hæðum verði tveggja hæða þakbar með útsýni út á sundin. Þá aðstöðu og fundarsali verði hægt að leigja í alls konar veislur, þar með talið brúkaup, og ráðstefnuhald. Hótelið verður að hluta byggt yfir lónið? Hver er hugsunin með því? „Það er náttúrulega til að fá útsýni úr herbergjunum.“ Og líka til að mynda skjól? „Já. Með því að hafa jarðhæðina sex metra háa er búið að skýla lónunum fyrir norðanáttinni. Og jafnframt mun þakgluggi yfir hluta lónsins skapa skjól.“

Af hverju verða gufuböð að hluta niðurgrafin? „Það er meðal annars til að skerða ekki útsýnið frá lónunum. Jafnframt verða þau í sömu hæð og fjaran og jarðvegurinn í kring sem skapar sterka tengingu við náttúruna.“

Hver er hugsunin að baki staðsetningunni? „Við hönnun mannvirkja er leitast við að skapa skjól fyrir norðanáttinni. Búningsklefar, gufur, spa og hvíldarherbergi með arineldi eru í kjallaranum og þaðan verður hægt að ganga upp ramp og upp í lónið.“

Þannig að þetta verður eins og baðstofan í Laugum í Laugardal en jafnvel glæsilegra?

„Já. Mikið flottara.“ Þetta er gríðarlega metnaðarfullt verkefni. Verkefnið heitir á ensku World Class Wellness Hotel. Hvernig eigum við að íslenska það? „Vinnuheitið er Heilsuhótel og baðlón ásamt líkamsrækt World Class á Fitjum. Við ætlum að stóla mikið á ferðamennina. Ekki síst ferðamenn sem dvelja hér stutt á leið yfir hafið. Hótelið verður enda aðeins í nokkurra mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum.

Viðtökurnar voru góðar

Við kynntum skipulagsyfirvöldum í Reykjanesbæ áformin síðasta föstudag og voru viðtökurnar afar jákvæðar. Tillögurnar eru í vinnslu en vegna breytinga á hönnun þurfum við að fara í nýtt deiliskipulag. Það þarf að auglýsa það og það tekur að sjálfsögðu tíma. Ég reikna með að því verði lokið um áramót. Við munum svo halda áfram með hönnun og hyggjumst fela verkfræðistofu að gera kostnaðaráætlun og síðan fáum við væntanlega tilboð í verkfræðihönnun. Í framhaldinu ímynda ég mér að hægt verði að hefja jarðvinnu næsta sumar. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og geri mér vonir um að hægt verði að opna lónið 2028.“ Þú áætlaðir í fyrrahaust að lón og hótel gætu kostað 10-12 milljarða. Nú er verkið orðið stærra. Gæti verkefnið kostað um 20 milljarða? „Já, það er ekki óraunhæft.“

Ekki komið að fjármögnun

Verður það fjármagnað með sjóðstreymi? „Ég er einfaldlega ekki kominn svo langt. Hef ekki rætt við fjármögnunaraðila. Ég ætla að reyna að komast sem lengst með verkefnið sjálfur en ef verkefnið reynist vera svo dýrt að mér verði ómögulegt að kljúfa það mun ég væntanlega fá fjárfestingasjóði í lið með mér. Sem koma þá inn í verkefnið með til dæmis 49% eignarhaldi. Við erum hins vegar ekkert farin að ræða það. Það er því allt opið varðandi hugsanlega fjármögnun.“

Verður hægt að loka lóni

Lónið verður þrískipt: baðstofulón, almennt lón og krakkalón. Hver er hugmyndin á bak við það? „Það er fyrst og fremst verið að búa til þrjú lón til að geta brugðist við ef það verður takmarkað framboð á vatni þegar notkunin er mest en þá verður hægt að loka einu eða tveimur lónum. Baðstofulónið verður fyrir hótelgesti og þá sem borga meira fyrir aðgang. Almenningslónið verður fyrst og fremst fyrir almenna gesti og aðra og barnalónið verður fyrst og fremst fyrir fjölskyldufólk með leiktækjum og dóti fyrir krakka.“

Hvað áttu von á mörgum gestum á dag?

„Líkamsræktin verður náttúrulega sérstaklega hönnuð fyrir íbúana. Miðað við að korthafar verði um 4.000 talsins má eiga von á að jafnaði 1.000 til 1.500 gestum á dag og yrði líkamsræktin þá ekki ósvipuð að stærð og World Class-stöðinni á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði. Þá gerum við ráð fyrir að geta tekið á móti 2.500 manns í lóninu á dag þegar best lætur, miðað við skápapláss og búningsaðstöðu, til að ekki verði of mikil þrengsli. Við þetta bætast um 400 hótelgestir og aðrir gestir sem munu jafnframt fara í lónið.“

Hvað muntu þurfa marga starfsmenn?

„Ég ímynda mér að það þurfi að lágmarki 100 manns.“ Eins og sjá má á teikningu af fyrirhuguðu hóteli úr lofti er stutt yfir rifið yfir á Víkingabraut þar sem Víkingaheimar eru. Stendur til að brúa það? „Já, það hafa verið hugmyndir um að gera brú yfir rifið. Víkingaheimar eru dálítið einangraðir sem stendur og með slíkri tengingu myndi umferðin aukast,“ segir Björn að lokum.